Reiði í Danmörku vegna sæmdarmorðs

Reiði ríkir í Danmörku eftir að greint var frá því í dagblaðinu Berlingske Tidende í morgun að 31 árs dönsk kona hafi verið skotin til bana af mági sínum í Pakistan. Mun maðurinn hafa játað á sig verknaðinn og sagt að um sæmdarmorð hafi verið að ræða þar sem konan hafi neitað að hlýða sér. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Hvorki Lene Espersen, dómsmálaráðherra Danmerkur, né Per Stig Møller utanríkisráðherra hafa viljað tjá sig um málið. 

Konan, sem skilur eftir sig tvö börn, var send til tengdafjölskyldu sinnar í Pakistan fyrir þremur árum þar sem hún gat ekki fætt eiginmanni sínum, sem enn býr í Danmörku, fleiri börn.

Talsmenn nokkurra danskra stjórnmálaflokks hafa krafist þess í dag að dönsk yfirvöld rannsaki málið og að upplýst verði hvað dönsk yfirvöld hafi gert til þessa til að koma i veg fyrir sæmdarmorð á dönskum konum sem fluttar hafi verið til annarra landa, jafnvel gegn vilja sínum.

„Það er mjög sorglegt að heyra að dönsk kona af pakistönskum uppruna skuli hafa verið drepin af mági sínum í Pakistan þar sem hún gat ekki fætt fleiri börn. Og þar að auki fáum við nú að heyra að dönsk yfirvöld séu í raun algerlega áhrifalaus í slíkum málum þannig að þau hafi jafnvel orðið að sleppa eiginmanni hennar úr haldi," segir Martin Henriksen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert