Dómstóll í Frakklandi úrskurðaði í dag að vín frá St Emilion í Bordeaux héraði megi ekki lengur bera gæðastimpilinn „Grand Cru". Verða vínframleiðendurnir nú að fjarlægja gæðastimpilinn af flöskum sínum. Þykir þetta mikið áfall fyrir vínframleiðendur í St Emilion.
„Akkúrat þegar við erum að byrja að setja framleiðslu ársins 2006 á flöskur þá verðum við að afpanta alla miðana á flöskurnar og kassana utanum þær og endurgera," segir Christine Valette, eigandi Chateau Troplong-Mondot, sem nýverið fékk viðurkenningu sem næst besti framleiðandi St Emilion Premier Grand Cru flokksins.
„Ég er í áfalli. Allir sem starfa við víngerðina eru í áfalli. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þetta gæti gerst," bætti Valette við.
Í úrskurðinum segir að gæðastimpillinn sé tekinn af St Emilion þar sem að vínunum væri raðað upp í gæðaflokka áður en þau hefðu aldur til.
Er talið að þetta geti haft áhrif á verð St Emilion vínanna þar sem gæðastimpillinn er talinn hafa áhrif til hækkunar auk þess sem vínið þykir eftirsóknarverðara á markaði.
Talsmaður vínframleiðenda í St Emilion, Conseil des Vins de St Emilion, segir að niðurstaðan sé grafalvarleg. Þrátt fyrir að þeim takist að fá úrskurðinum hnekkt þá getur það tekið allt að tvö ár í kerfinu.