Tjaldvögnum stolið í Danmörku

Þjófnaðarfaraldur á tjaldvögnum gengur nú yfir Danmörku. Samtökin Camping Branchen, segja félagsmenn sína hafa misst 30 tjaldvagna með þessum hætti á stuttum tíma og að lögregla hafi ekki tekið á vandanum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samtökin, sem í eru innflytjendur, sölumenn og þeir sem leigja tjaldvagna, hafa því hafið sína eigin rannsókn á málinu. Per Lippert-Scherwin, talsmaður samtakanna segir að m.a. sé leitað að einhverju sem tengi þjófnaðina saman.

„Það ganga um það sögusagnir í bransanum að nokkur útlend gengi standi á bak við þjófnaðina,” segir Per Lippert-Scherwin. Þá segist hann eiga erfitt með að trú aða hægt sé að selja vagnana, sem allir eru skráðir, í Danmörku.

Í síðustu viku var fjórum tjaldvögnum stolið frá fyrirtækinu KG Camping í Kolding á einni nóttu. Fimm vögnum, sem metnir eru á tæplega sextíu milljónir íslenskra króna, var einnig stolið af fyrirtækinu Vonsild Camping á aðfaranótt sunnudag.

Í Christiansfeld hafa sölumenn tjaldvanga nú brugðið á það ráð að reisa rafmagnsgirðingu umhverfis sýningasvæði sitt en þeir segjast aldrei hafa orðið vitni að jafn mörgum þjófnuðum og það sem af er þessu sumri. Frá því girðingin var sett upp hefur hins vegar engum tjaldvagni verið stolið af svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert