Betancourt hittir börn sín

Ingrid Betancourt, fyrrum forsetaframbjóðandi í Kólumbíu sem losnaði úr haldi uppreisnarmanna í landinu í gær, hitti börn sín tvö í  fyrsta skipti í sex ár í dag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Börnin komu til Kólumbíu frá Frakklandi þar sem þau búa. Með þeim í för var Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, en Betancourt er alin upp í Frakklandi og hefur franskan ríkisborgararétt.

„Þau hafa breyst svo mikið en á sama tíma eru þau svo lík sjálfum sér," sagði hún um börn sín. „Ég á mér svo marga drauma sem mig langar til að deila með þeim. Það er svo margt sem mig langar til að segja þeim."

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti fagnaði lausn hennar í gær og sagði fjölskyldu hennar hafa þurfta að búa við mikla óvissu um árabil. „Það var mikið um blekkingar en þau héldu alltaf í trúna og traustið," sagði hann. „það var alltaf vonarneisti og í dag er gleðin mikil. Allt Frakkland fagnar endurkomu Ingrid Betancourt."

Ségolène Royal, mótframbjóðandi Sarkozy í síðustu forsetakosningum tók í sama streng. „Þau misstu aldrei vonina. þau trúðu því alltaf að frelsun móður þeirra væri möguleg," sagði hún.

Talið er að Betancourt muni halda til Parísar í kvöld. 

Ingrid Betancourt ásamt börnum sínum Melanie og Lorenzo á Catam …
Ingrid Betancourt ásamt börnum sínum Melanie og Lorenzo á Catam herflugvelli í Bogóta, höfuðborg Kólumbíu í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert