Dómur stríðsglæpadómstóls felldur úr gildi

Naser Oric í dómssalnum í morgun.
Naser Oric í dómssalnum í morgun. AP

Áfrýjunardómstóll Sameinuðu þjóðanna felldi í dag við úr gildi dóm Stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna vegna lýðvelda fyrrum Júgóslavíu yfir Naser Oric, leiðtoga herja múslíma í Srebrenica í Bosníu á tímum Bosníustríðsins. Oric var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að bregðast þeirri skyldu sinni að koma í veg fyrir morð og illa meðferð á Bosníu-Serbum sem voru í haldi herja hans.

Oric var dæmdur af stríðsglæpadómstólnum fyrir tveimur árum og braust út mikil reiði meðal Bosníu-múslima sem litu á hann sem stríðshetju en brot Orics voru framin áður en Serbar frömdu fjöldamorð á múslímum í Srebrenica árið 1995.

Oric var hins vegar sleppt eftir að hafa verið dæmdur af stríðsglæpadómstólnum vegna þess tíma sem hann hafði setið í gæsluvarðhaldi áður en dómur féll.

Í niðurstöðu áfrýjunardómstólsins var sakfelling Oric felld úr gildi þar sem stríðsglæpadómstólnum yfirsást að færa fyrir því sönnur að Oric hefði stýrt  þeim herdeildum sem báru ábyrgð á glæpunum sem framdir voru á tímum Bosníustríðsins.  „Áfrýjunardómstóllinn efast ekki um alvarleika þeirra glæpa sem framdir voru gegn Serbum  sem voru í haldi í Srebrenica," sagði dómsstjórinn, Wolfgang Schomburg, í morgun. Hins vegar eru ekki fullnægjandi sannanir fyrir því að þeir glæpir sem dæmt var fyrir hafi verið á ábyrgð þess sem dæmdur var, segir Schomburg.

Oric var viðstaddur dómsúrskurðinn í dag og fagnaði niðurstöðunni og sagði lögfræðingur hans að niðurstaðan komi ekki á óvart. Oric segist ekki vera bitur þrátt fyrir að hafa setið í varðhaldi í tæp þrjú ár áður en dómur féll á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert