Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, hvatti FARC samtökin til þess í gærkvöldi að sleppa öllum gíslum sínum eftir að þekktasti gísl samtakanna Ingrid Betancourt, fyrrum forsetaframbjóðandi í landinu, var frelsuð úr haldi þeirra í gær. Mun frelsum hennar vera árangur starfs njósnara sem störfuðu með samtökunum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Betancourt greindi frá því á blaðamannafundi í gær að hún hafi ekki vitað að björgun væri í nánd fyrr en hún var komin upp í þyrlu kólumbíska stjórnarhersins og fangaverði hennar var skyndilega hrint í gólfið og hann handjárnaður.
Talið er að um 750 gíslar séu í haldi samtakanna, margir þeirra efnafólk sem samtökin hafa krafist lausnargjalda fyrir.
Auk hennar voru þrír bandarískir verktakar og ellefu kólumbískir lögreglu og hermenn frelsaðir úr haldi samtakanna.