Þýski stjórnmálamaðurinn Roger Kusch hefur vakið mikla hneykslan og reiði í heimalandinu eftir að hann aðstoðaði aldraða konu að deyja og birti svo myndband sem sýndi samtal þeirra í millum sem fram fór skömmu fyrir lát konunnar. Margir þrýsta nú á stjórnvöld að herða reglur og viðurlög við að aðstoða fólk að fremja sjálfsvíg.
Kusch segist hafa ráðlagt hinni 79 ára Bettinu Schardt hvernig ætti að blanda saman banvænni lyfjablöndu róandi lyfja og malaríulyfja. Þá hafi hann yfirgefið íbúð hennar skömmu áður en hún tók inn blönduna og lést.
Schardt var ógift og barnlaus og almennt við góða heilsu. Hún sagðist þó óttast mikið að verða flutt á hjúkrunarheimili og hafi viljað binda endi á líf sitt.
Kusch, sem hefur verið áberandi talsmaður fyrir líknardrápi, birti nýlega myndband þar sem hann sést ræða við Schardt.
Lögregla hefur nú myndbandið til rannsóknar. Í Þýskalandi er bannað með lögum að aðstoða fólk að fremja sjálfsvíg, en Kusch vonast til að sleppa við ákæru þar sem hann lét Schardt lyfin ekki persónulega í té.