Menntamálayfirvöld í Danmörku hafa krafist þess að 40 skólar lengi kennslutíma á næsta skólaári þar sem skólarnir stóðu ekki við kennsluskyldu á síðasta ári. Er þetta í fyrsta skipti sem dönskum skólum er gert að bæta upp glataðar kennslustundir á milli ára. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Það liggja oft lögmætar ástæður að baki því að kennslustundir hafi verið of fáar en ástæðurnar eru mjög mismunandi. Stundum er um að ræða skort á kennurum og sums staðar hafa sveitafélögin valið að bjóða börnum upp á færri kennslustundir með tveimur kennurum í einu fremur en fleiri kennslustundir með einum kennara," segir Jacob Hess skrifstofustjóri skólayfirvalda.
Lágmarkstímafjöldi á nemenda var settur í lög í Danmörku árið 2003 en hann miðast við þriggja ára tímabil.
Er fyrsta þriggja ára tímabilið var gert upp árið 2006 kom í ljós að 499 skólar höfðu ekki tekið tillit til laganna. Að síðasta skólaári loknu hafa 55 skólar ekki veitt nemendum nægilega kennslu. Hefur 40 þeirra verið gert að bæta nemendunum það upp á næsta ári.
Í flestum tilfellum er um 20 til 30 kennslustundir að ræða.