Ítölsk yfirvöld eru byrjuð að taka fingraför af tugþúsundum sígauna sem búa í tjaldbúðum á víð og dreif um landið. Skiptir engu máli hvort um er að ræða fullorðna eða börn. Láta yfirvöldin ásakanir mannréttindasamtaka um kynþáttafordóma sem vind um eyru þjóta. Um 700 tjaldbúðir hafa verið reistar á Ítalíu, flestar í kringum Róm, Mílanó og Napólí.
Innanríkisráðherrann Roberto Maroni segir þetta nauðsynlegt í baráttunni gegn glæpum og til þess að bera kennsl á ólöglega innflytjendur svo unnt sé að reka þá úr landi. Þá muni þetta bæta lífsskilyrði þeirra sem búa löglega í búðunum, sem oft séu óheilnæmar.
„Við ætlum að búa til manntal til að hafa yfirsýni yfir það hverjir búa í sígaunabúðum, hverjir hafa rétt á að dveljast þar og lifa við mannsæmandi skilyrði. Þeir sem hafa ekki öðlast dvalarrétt verða sendir aftur til síns heima,“ sagði hann.
Þessar aðgerðir íhaldssömu ríkisstjórnar forsætisráðherrans Silvio Berlusconi, sem lagst hefur í mikla herferð gegn götuglæpum, hefur vakið mikla reiði og mótmæli jafnt á Ítalíu sem erlendis. Embættismenn vilja flestir kenna sígaunum um aukna tíðni glæpa í stærstu borgum landsins.