Þýska þingið íhugar nú að breyta lögum um aðstoð við sjálfsvíg eftir að Roger Kusch, fyrrverandi stjórnmálamaður, olli miklu fjaðrafoki þar í landi með því að hjálpa eldri konu að deyja. Kusch tók upp samtöl sín við konuna sem og síðustu stundir hennar á lífi.
Kusch, sem er lögmaður og ötull baráttumaður fyrir rétti fólks til að deyja, ráðlagði hinni 79 ára gömlu Bettinu Schart um hvernig búa ætti til banvænan lyfjakokteil. Að því loknu yfirgaf hann íbúð hennar og skömmu síðar var hún látin.
Schart þjáðist ekki af neinum banvænum sjúkdómi. Hún var einstæð, barnlaus og einmana og vildi ekki enda á hjúkrunarheimili. Schart útvegaði sér lyfin sjálf. Með því að hafa myndatökuvél í gangi gætti Kusch þess að gera ekkert ólöglegt. Á upptökum sjást þau ræða saman í nokkrar klukkustundir. Ekki var slökkt á upptökunni þegar Kusch yfirgaf íbúðina og Schart útbjó lyfjakokteilinn banvæna og því sannar hún að Kusch gaf henni ekki kokteilinn sjálfur.
Kusch vakti mikla hneykslan þegar hann sýndi upptökuna opinberlega í fjölmiðlum landsins. Þó er ekki ólöglegt að hjálpa fólki að binda endi á líf sitt í Þýskalandi, svo lengi sem fólk komi ekki með beinum hætti að því. Verði af lagabreytingunni verður ólöglegt fyrir samtök að hjálpa fólki að enda líf sitt, hvort sem það er með beinum hætti eða einföldum ráðleggingum.
Ekki er ljóst hvort hægt væri að refsa Kusch yrði hann uppvís að svipuðu athæfi eftir að lagabreytingarnar ganga í gegn. Hann er formaður samtaka sem berjast fyrir rétti fólks til að deyja en hann heldur því fram að við aðstoð Schart hafi hann ekki verið í forsvari félagsins heldur einn að verki.