Að minnsta kosti fimmtán létust, þar af átta lögregluþjónar, og tugir eru særðir eftir að sjálfsvígsárás var gerð í höfuðborg Pakistan, Islamabad, í dag. Sprengjan sprakk í nágrenni lögreglustöðvar og stutt frá Melody verslunarhverfinu. Ár er liðið frá því að löngu umsátri um Rauðu moskuna í borginni lauk með blóðugum átökum þar sem um 100 manns féllu.
Nemar í trúarskólum höfðu Rauðu moskuna á sínu valdi í sex mánuði.
Þeir sækja innblástur í stjórnarhætti talíbana í Afganistan. Nemarnir fylgdu fyrirmælum klerka sem kröfðust að sharia, ströng útgáfa af lögum íslams, gildi í Pakistan.