Ísraelsher gerði atlögu við sex palestínskar stofnanir og fyrirtæki í Nablus á Vesturbakkanum en þessar stofnanir eru sagðar tengjast Hamas og styrkja samtökin fjárhagslega.
Samkvæmt Ma'an fréttavefnum réðust ísraelskir hermenn í 120 herbílum inn í Nablus í gærkvöldi og tóku hús á þessum fyrirtækjum og fjarlægðu skjöl og tölvur.
Nafha samtök sem fjalla um málefni fanga, íslamska verkalýðsfélagið, Vísinda- og læknavísindafélagið og Yazur samtökin í Balata flóttamannabúðunum og Al-Bashma samtökin í 'Askar flóttamannabúðunum en hermennirnir réðust einnig inn í Huda moskuna í 'Askar flóttamannabúðunum.
Ma'an fréttavefurinn segist hafa eftir sjónarvottum að Ísraelsher hafi einnig ráðist inn í Nablus Mall verslunarmiðstöðina og fjarlægt þaðan gögn og tölvur. Í verslunarmiðstöðinni eru 50 verslanir sem að sögn Ísraela styrkja Hamas-samtökin fjárhagslega og stuðla þannig að hryðjuverkum.
Yfirmaður stjórnar verslunarmiðstöðvarinnar, Adli Yayish hefur setið í gæsluvarðhaldi í eitt og hálft ár, sakaður um tengsl við Hamas.
Yfirmaður ísraelska hersins í Nablus hefur gefið út skipun þess efnis að hver sá sem stígur fæti inn í Nablus Mall verslunarmiðstöðina frá og með morgundeginum verði handtekinn og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar.