Evrópusambandið stefnir að því að verja 90 milljónum evra, tæplega 11 milljörðum króna, á ári í að bjóða upp á ávexti og grænmeti í skólum í ríkjum sambandsins. Verða ávextirnir og grænmetið ókeypis en þetta er liður í aðgerðum ESB til að sporna við offitu meðal barna.
Talið er að um 22 milljónir barna í ríkjum ESB séu of þung vegna rangs mataræðis. Fimm milljónir þeirra eru skilgreind sem offitusjúklingar og er talið að þeim fjölgi um 400 þúsund á hverju ári.
Vandamálið blasir við
Hollt fæði skiptir sköpum þegar kemur að baráttunni við offitu og að koma í veg fyrir hjarta- og æðarsjúkdóma og aðra sjúkdóma sem fylgja offitu síðar á lífsleiðinni.
„Þú þarft einungis að ganga um helstu götur í Evrópu til þess að sjá vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, of þung börn. Gerum eitthvað í þessu," sagði Mariann Fischer Boel, yfirmaður landbúnaðarmála hjá ESB þegar hún kynnti áætlunina