Samþykkt að draga úr losun

Nokkrir leiðtoga G8 ríkjanna sjást hér veifa ljósmyndurum. Frá vinstri: …
Nokkrir leiðtoga G8 ríkjanna sjást hér veifa ljósmyndurum. Frá vinstri: Dmítrí Medvedev Rússlandsforseti, George W. Bush Bandaríkjaforseti, Yasuo Fukuda, forsætisráðherra Japans, Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Reuters

Forsætisráðherra Japans, Yasuo Fukoda, segir að leiðtogar G8 ríkjanna hafi samþykkt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir árið 2050. Loftlagsbreytingar og efnahagsmál heimsins eru í meginumræðuefni leiðtoganna sem funda nú í Japan, en annar dagur fundarhaldanna hófst í dag.

Á fundi G8 ríkjanna á síðasta ári hétu leiðtogarnir að íhuga það alvarlega að draga úr losun koltvísýrings um 50% fyrir árið 2050. Og nú virðist sem að leiðtogarnir hafi samþykkt það. 

Fram kemur á fréttavef BBC að Evrópusambandið og Japanir vilji að leiðtogarnir samþykki yfirlýsingu þar sem orðalagið er mun ákveðnara og bráðabirgðatakmörk tilgreind. 

Í gær ræddu leiðtogarnir um síhækkandi eldsneytis- og matvælaverð og áhrif verðhækkananna á fátækustu íbúa heims. 

Sjö leiðtogar Afríkuríkja tóku þátt í fundarhöldunum til að koma áhyggjum sínum á framfæri.

Mótmælendur á svæðinu hafa hins vegar sakað leiðtoga G8 ríkjanna um að hafa ekki staðið við gefin loforð um að tvöfalda fjárframlög til Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka