Japanska vinnumálastofnunin hefur komist að þeirri niðurstöðu að einn af helstu vélaverkfræðingum hjá bílaframleiðandanum Toyota hafi látist af of mikilli yfirvinnu. Samkvæmt fréttaskýrendum er þetta einn af mörgum slíkum úrskurðum en mikil yfirvinna hefur lengi verið viðurkennt vandamál í Japan.
„Hann vann að meðaltali 80 yfirvinnustundir á mánuði síðustu tvo mánuði ævi sinnar," sagði talsmaður vinnumálastofnunarinnar.
Hinn látni var 45 ára og hafði verið undir miklu álagi er hann lést úr hjartabilun í janúar 2006 en hann hafði unnið að því að hanna nýjan vistvænan Toyota Camry bíl með blendingsvél (e. hybrid).
Toyota hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að fjölskylda mannsins muni fá bætur og litið sé á dauðsfall mannsins sem vinnuslys þó að hann hafi fundist látinn heima hjá sér. Jafnframt er tekið fram að stöðugt sé unnið að því að fylgjast betur með heilsufari starfsmannanna.
Fréttaskýrendur segja að í Japan sé unnið að því að draga úr dauðsföllum sökum of mikillar yfirvinnu en fyrirbærið nefnist „karoshi" á japönsku og var fyrst viðurkennt af yfirvöldum þar í landi sem vandamál 1987.