Dr. Dauði sagður á lífi

Talsmenn Simon Wiesenthal-stofnunarinnar, sem leitar uppi nasista sem flúðu eftir seinna stríð, segjast hafa í höndunum sannanir fyrir því að einn illræmdasti samstarfsmaður Adolfs Hitlers, dr. Dauði, sé nú í felum í Chile í Suður-Ameríku.

Stofnunin telur að Aribert Heim sé staddur í Patagoniu, en það er vitað að dóttir hans býr þar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Stofnunin hefur sent fulltrúa til Chile til að leita að Heim.

Heim er sagður hafa skráð hjá sér öll þau fórnarlömb sem hann pyntaði og myrti í Mauthausen útrýmingarbúðunum í Austurríki á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hann er sakaður um að hafa myrt gyðinga á einstaklega grimmilegan hátt. Fólk sem lifði af vistina í útrýmingarbúðunum segja að Heim hafi framkvæmt skurðaðgerðir og aflimað fólk án deyfingar. Þetta á Heim að hafa gert til að kanna sársaukaþolmörk fólksins.

Auk þess á hann að hafa sprautað bensíni, vatni og eitri beint í hjartað á fólki þegar hann var í Mauthausen.

„Undanfarna daga höfum við fengið upplýsingar frá tveimur heimildarmönnum, báðum sem tengjast Chile, sem við teljum líklegt að muni leiða okkur á sporið,“ segir Efraim Zuroff, yfirmaður Simon Wiesenthal-stofnunarinnar í Ísrael.

Stofnunin hefur heitið 315.000 evrum hverjum þeim sem geta gefið upplýsingar sem gæti leitt til þess að Heim yrði handtekinn.

Eftir seinna stríð var Heim handtekinn af Bandaríkjaher en hann var ekki ákærður. Hann stundaði læknastörf í þýska bænum Baden-Baden til ársins 1962. Hann flúði landið hins vegar eftir að hafa fengið ábendingu um að yfirvöld ætluðu að ákæra hann.

Heim er 94 ára gamall, sé hann enn á lífi.

Aribert Heim, betur þekktur sem dr. Dauði.
Aribert Heim, betur þekktur sem dr. Dauði. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert