Ósprungnar sprengjur fundust nærri baðströnd

Mikið magn af ónotuðu sprengiefni og skotfærum frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar fannst við almenningsströnd í norðurhluta Póllands. Unnið er að því að eyða sprengiefninu.

Meðal þess sem fannst voru 70 tonn af ónotuðu sprengiefni sem þýskir nasistar höfðu grafið í jörðu.

Þá fundust um 20.000 aðrir munir, s.s. skotfæri og hvellhettur.

Kallað var eftir sprengjusérfræðingum eftir að sveppatínslumaður fann vélbyssubelti þar sem það lá hálfgrafið í jörð í skógi sem er skammt frá þorpinu Swibno, sem liggur við Eystrasaltið. Bærinn er austan við hafnarborgina Gdansk.

Að sögn yfirvalda er um afar hættuleg sprengiefni að ræða. Þau fundust um 70 metra frá almenningsströnd.

Sprengjusérfræðingar eyddu megninu af sprengiefninu í gær og búast við að ljúka verkinu í dag.

Það er algengt að ósprungnar sprengjur frá tímum síðari heimstyrjaldarinnar finnist í Póllandi og Þýskalandi, rúmum 60 árum eftir að stríðinu lauk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert