Bandarísk yfirvöld hafa sakað Rússa um þrætugirni vegna viðbragða rússneskra stjórnvalda við samningi Bandaríkjanna og Tékklands um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Tékklandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins Pentagon sagði í gær að viðbrögð Rússa miði greinilega að því að skapa óöryggi í Evrópu. Talsmaður Hvíta hússins, sagði hins vegar að samningaviðræður Bandaríkjanna og Rússa um málið muni halda áfram.
„Við leitum eftir hernaðarlegri samvinnu til að koma í veg fyrir að vinum okkar og bandamönnum stafi hætta af langdrægum eldflaugum frá harðsvíruðum ríkjum á borð við Íran,” sagði Gordon Johndroe, talsmaður Hvíta hússins.
Skrifað var undir samninginn í gær og í kjölfar þess lýstu rússneskir ráðamenn því yfir að Rússar sæju sig neydda til að bregðast við með hernaðarlegum hætti gangi þau áform sem samningurinn byggir á eftir. Bandaríkjamenn segja uppsetningu eldflaugavarnakerfis í Evrópu fyrst og fremst vera vörn gegn hugsanlegum árásum Írana. Rússar segja slíkt kerfi hins vegar draga úr vörnum Rússlands.