Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur staðferst að hann hyggist sækja Ólympíuleikana sem hefjast í Beijing í Kína þann 8. ágúst. Sarkoszy hafði áður sagt það fara eftir þróun mála í málefnum Tíbet, hvort hann mætti á leikana. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Skrifstofa Sarkozy staðfesti að hann myndi sækja leikana eftir fund sinn með Hu Jintao, forseta Kína, á leiðtogafundi G8 ríkjanna í Japan. Í yfirlýsingu forsetaskrifstofunnar er ekki minnst á ástandið í Tíbet. Þar segir hins vegar að Hu hafi lagt áherslu á það á fundi forsetanna að Ólympíuleikarnir væru tákn friðar, vináttu og bræðralags.
Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa þegar gagnrýnt ákvörðun Sarkozys og sagt hann gera lítið úr fyrri yfirlýsingum sínum og smána skuldbindingar sínar við frönsku þjóðina með því að fara á leikana.
Frakkar fara nú með formennsku innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og verður Sarkozy því fulltrúi þess á leikunum. Áður hefur George W Bush Bandaríkjaforseti lýst því yfir að hann muni sækja leikana en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hafa sagt að þau muni ekki gera það.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta mun verða viðstaddur lokaathöfn leikanna.