Kanadískir fjölmiðlar greina frá því í dag að kanadískur ríkisborgari, Omar Khadr, sem er í haldi Bandaríkjamanna í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu, hafi verið haldið vakandi með valdi svo það væri auðveldara að yfirheyra hann.
Vísað er í skjöl sem fjölmiðlarnir fengu í hendur með dómsúrskurði. Þar kemur fram að Khadr hafi verið færður á milli fangaklefa á þriggja tíma fresti svo það yrði auðveldara að yfirheyra hann. Þetta er eitthvað sem bandarísk yfirvöld kalla „frequent-flyer program“.
Khadr er yngsti fanginn sem bandarísk stjórnvöld hafa handtekið í stríðinu gegn hryðjuverkum. Hann er sakaður um að hafa kastað handsprengju sem varð bandarískum hermanni að bana í Afganistan.
Hann var handtekinn í Afganistan árið 2002 þegar hann var 15 ára. Hann bíður nú þess að mál hans verði tekið fyrir hjá sérstökum herdómstóli í október nk., en réttarhöldin fara fram í Guantanamo-búðunum. Þar hefur hann dvalið frá því hann var handtekinn.
Kanadískur alríkisdómari, sem kynnti sér skjöl utanríkisþjónustunnar, sagði í síðasta mánuði að meðferðin á Khadr bryti í bága við alþjóðamannréttindasáttmála. Þá fyrirskipaði hann að skjölin skyldu afhent verjendum Khadrs.