Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, segir að ísraelsk stjórnvöld séu reiðubúin að grípa til aðgerða gagnvart Íran telji þau að Íran ógni landinu.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að Barak hafi sagt að Ísraelar hafi „sýnt það og sannað að það hyki ekki að grípa til aðgerða þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi.“
Íranar hafa undanfarna tvo daga gert tilraunir með eldflaugar sem gætu náð til Ísrael. Barak lét ummælin falla af þessu tilefni, en Íranar hafa með tilraunum sínum ögrað bæði Ísraelum og Bandaríkjamönnum.
Barak bætti því hins vegar við að það væri nauðsynlegt að leita fyrst leiða til að leysa málið eftir diplómatískum leiðum, áður en gripið væri til annarra aðgerða.