Jackson biður Obama afsökunar

Barack Obama með Jesse Jackson, sem speglast í bílrúðunni, á …
Barack Obama með Jesse Jackson, sem speglast í bílrúðunni, á síðasta ári. AP

Bandaríski presturinn og blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson hefur beðist afsökunar á þeim ummælum sínum að Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, hafi talað niður til blökkumanna í kosningabaráttu sinni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Jackson hvíslaði ummælin að  Dr. Reed V. Tuckson, framkvæmdastjóra UnitedHealth Group, er þeir voru saman í upptökuveri Fox fréttastofunnar vegna sjónvarpsviðtals. Kveikt var á hljóðnema Jacksons án þess að hann geri sér grein fyrir því.

„Þetta var einkasamtal," sagði Jackson er hann baðst afsökunar. „Hafi það á einhvern hátt skaðað kosningabaráttuna þá biðst ég afsökunar á því."   Bill Burton, talsmaður kosningabaráttu Obama hefur þegar sagt að Obama hafi tekið afsökunarbeiðnina til greina.

Áður hafði Jesse Jackson yngri, sonur Jacksons, sem er er náinn samstarfsmaður Obama, fordæmt ummæli föður sína. „Ég er innilega móðgaður og reiður vegna kæruleysislegra ummæla Jacksons um Barack Obama öldungadeildarþingmann," sagði hann. „Villandi og niðurlægjandi ummæli hans um frambjóðanda demókrata, sem ég tel einnig vera  næsta forseta Bandaríkjanna, eru í mótsögn við persónuleika hans og starfsferil sem yfirleitt veita fólki innblástur og kjark."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert