47 borgarar féllu í árás Bandaríkjamanna

Bandarískur hermaður á götu í bænum Garmser í Helmand héraði …
Bandarískur hermaður á götu í bænum Garmser í Helmand héraði í Afganistan. AP

Rannsóknarnefnd sem Hamid Karzai, forseti Afganistans, skipaði til að rannsaka dauða fjölda fallinna borgara í loftárás bandaríska herliðsins á bílalest í Nangarhar-héraði í austurhluta landsins síðastliðinn sunnudag, hefur greint frá því að 47 óbreyttir borgarar hafi láti lífið í árásinni, þar af 39 konur og börn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Bandaríkjaher staðhæfði upphaflega að einungis vopnaðir uppreisnarmenn hefðu fallið í ásrásinni en yfirvöld á svæðinu sögðu þá að um tuttugu óbreyttir borgarar væru á meðal hinna föllnu. Segja héraðsyfirvöld fólkið hafa verið á leið til brúðkaupsveislu er árásin var gerð á bílalest þess. 

Rumi Nielson-Green, talsmaður bandaríska herliðsins á svæðinu, segir málið vera í rannsókn innan hersins og að herliðið geri allt til að koma í veg fyrir að óbreyttir borgarar falli í aðgerðum þess. 

Mirwais Yasini,  aðstoðarforseti neðri deildar afganska þingsins, hefur lýst miklum áhyggjum af atvikinu, sem hann segist telja að rekja megi til þess að bandaríska herliðinu hafi  vísvitandi verið veittar rangar upplýsingar. Segir hann slík atvik mynda gjá á milli almennings og yfirvalda í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert