Yfirvöld í Kína hafa beðið hótel og veitingastaði í Peking að taka hundakjöt af matseðlum sínum á meðan á Ólymíuleikunum stendur í ágúst og september. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
Hundakjöt er vinsæll réttur á kóreskum veitingastöðum í Kína og einnig á veitingastöðum sem sérhæfa sig í réttum frá Yunnan og Guizhou. Nú hefur matvælaeftirlit landsins hins vegar sent frá sér reglugerð þar sem bannað er að bjóða upp á hundakjöt á hótelum sem tengjast Ólympíuleikunum.
Önnur veitingahús eru beðin um að bjóða ekki upp á hundakjöt og er öllum matsölustöðum gert að tilgreina sérstaklega rétti sem í eru einhverjar afurðir sem tengjast hundum.
Talsmenn matvælaeftirlitsins segja reglugerðina hafa verið setta þar sem Kínverjum beri að virða matarvenjur gesta sinna. Ekki hafa verið settar neinar hömlur á framboð af asnakjöti, sem einnig er vinsælt til matargerðar í Kína, í tengslum við Ólympíuleikana.