„Uppeldið á ábyrgð foreldra"

Sir Alan Steer, ráðgjafi bresku stjórnarinnar í hegðunar og menntamálum, segir í skýrslu sem birt verður á mánudag að rekja megi ofbeldi meðal ungmenna til vaxandi ókurteisi og græðgi í menningarheimi fullorðinna. Þetta kemur fram á fréttavef Guardian.  

Steer segir í skýrslunni að foreldrar þurfi að taka á sig meiri ábyrgð í baráttunni gegn ungmennaglæpum. Hann ver hins vegar almenningsskólana og segir þá í mörgum tilfellum vera einu griðarstaði ungmenna sem  komi úr ofbeldisfullu umhverfi.

Steer segir að rekja megi þá ofbeldisöldu sem nú gangi yfir Londonað hluta til til ákveðinna menningarstrauma ungmenna en að þeir sem eldri eru geti þó ekki firrt sig allri  ábyrgð í málinu. „Við berum ákveðna ábyrgð,” segir hann í viðtali við Guardian.

„Oft erum við fullorðna fólki ekki góðar  fyrirmyndir hvað hegðun varðar. Menning okkar einkennist af græðgi og við sýnum hvort öðru ókurteisi á götum úti. Börnin fylgja því fordæmi okkar og svo veltum við því fyrir okkur hvað hafi farið úrskeiðis hjá þessum börnum. Börnin bera auðvitað ábyrgð en okkur ber líka að spyrja að því hvað gangi á heima hjá þeim. Foreldrar bera mikla ábyrgð. Það eru ekki yfirvöld sem ala upp börnin heldur foreldrarnir.” 

Hann segir þó ekki rétt að gera foreldra einstakra ungmenna að blórabögglum en leggur áherslu á að yfirvöld grípi inn í og reyni að aðstoða foreldra ungmenna með hegðunarvandamál. Hvetur hann m.a. til þess að það verði gert með auknum samskiptum foreldra og kennara.

„Það er auðvelt að dæma fjölskyldur en raunveruleikinn er einfaldlega sá að þær búa við ákveðnar aðstæður. Það er hlutverk skólanna að mennta börn en stundum verðum við að aðstoða við uppeldi þeirra líka,” segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert