Utanríkisráðuneyti Írans hefur harðlega gagnrýnt þau ummæli John McCain, forsetaframbjóðanda bandarískra repúblíkana, að sígarettur séu best nýttar til þess að flytja þær til Íran og drepa þannig Írani með þeim. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
„Við gagnrýnum slík ummæli og teljum þau ljót og siðlaus, ekki síst þegar þau koma frá manni sem hyggst leiða þjóð sem telur sig vera siðmenntaða," segir Mohammad-Ali Husseini, talsmaður ráðuneytisins í samtali við IRNA fréttastofuna..
McCain sagði þetta á miðvikudag er hann var spurður um álit sitt á nýrri skýrslu þar sem fram kemur að útflutningur Bandaríkjamanna til Írans hafi aukist mjög í valdatíð George W. Bush Bandaríkjaforseta, ekki síst á sígarettum.
„Þetta átti að vera brandari bætti hann við," er viðstaddir hlógu vandræðalega og eiginkona hans Cindy hnippti í hann. McCain hefur áður sett fram harkaleg ummæli um Írani m.a. er hann söng um að sprengja þá við lag Beach Boys' "Barbara Ann.