Stjórnvöld í Afríkuríkinu Simbabve fagna því að Rússar og Kínverjar hafi beitt neitunarvaldi á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. Rússar og Kínverjar höfnuðu í atkvæðagreiðslu tillögu um að beita leiðtoga Simbabve refsiaðgerðum þar sem landið ógni ekki alþjóðaöryggi.
Sikhanyiso Ndlovu, upplýsingamálaráðherra Simbabve, segir að tillagan hafi verið tilraun til að láta íbúa landsins þjást svo þeir myndu snúast gegn ríkisstjórninni. Hann þakkaði bæði Rússum og Kínverjum.
Bresk stjórnvöld segja ákvörðun Rússa og Kínverja óskiljanlega. Bandarísk stjórnvöld segja hins vegar að sú spurning hafi vaknað hvort hægt sé að treysta Rússum til að vera aðili að G8.
Suður-afríks stjórnvöld segja hins vegar að refsiaðgerðir myndu koma í veg fyrir að hægt yrðir að mynda þjóðstjórn í landinu.
Hefði tillagan verið samþykkt hefði vopnasölubann tekið gildi og þá hefði Robert Mugabe, forseta Simbave, og 13 af helstu stuðningsmönnum hans verið settir í farbann.
Stjórnvöld í Simbabve hafa verið harðlega gagnrýnd að undanförnu í kjölfar forsetakosninganna, þar sem Mugabe var endurkjörinn. Stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar og sakar forsetann um spillingu og ofbeldi.