George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur gefið Ísraelum gult ljós á að hefja undirbúning að hernaðaraðgerðum gegn Írönum, samkvæmt heimildum embættismanna í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
„Gult þýðir, undirbúið ykkur verið reiðubúnir til tafarlausrar árásar og látið okkur vita þegar þið eruð tilbúnir," segir einn embættismannanna í samtali við The Sunday Times.
á segir hann Bush hafa gert ísaelskum ráðamönnum grein fyrir því að Bandaríkjastjórn styðji Ísraela í því að gera loftárásir á kjarnorkutilraunastöðvar Írana, með langdrægum eldflaugum, skili samningaviðræður ekki árangri.
Bush mun þó hafa tekið skýrt fram að bandaríkir hermenn muni ekki taka þátt í slíkri árás og að ekki verði veitt hernaðaraðstaða til slíkrar árásar í Írak.
Afstaða Bush mun vera í andstöðu við afstöðu æðstu yfirmanna Bandaríkjahers sem telja árás á Íran mjög óráðlega.