Maliki dreifir reiðufé á götum úti

Kindum og geitum var slátrað í Radwaniyah herstöðinni í Írak …
Kindum og geitum var slátrað í Radwaniyah herstöðinni í Írak á föstudag í tilefni af samningum Sjeik Ayad al-Jabouri og Jeffery Hammond, yfirmanns bandaríska herliðsins í Bagdad. AP

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, og fleiri háttsettir embættismenn hafa á undanförnum vikum dreift reiðufé til vegfarenda á götum Bagdad og fleiri borga landsins. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.   

Með þeim í för eru bókarar en peningagjafirnar eru löglegar að þeim skilyrðum uppfylltum að þær séu skráðar og að hver einstaklingur fái ekki meira en andvirði 8.000 Bandaríkjadollara.  Mest mun þó vera um mun minni gjafir.

Aðstoðarmenn Malikis, segja ekkert óeðlilegt við þetta enda sé einungis um að ræða aðgerð sem miði að því að bæta kjör hinna fátækustu í landinu og létta þeim lífið. Þá segja þeir peningagjafirnar vera lítinn þátt af umfangsmiklu verkefni sem felist í því að byggja upp grundvallarþjónustu í landinu og koma hjólum hagkerfisins af stað.

„Peningar eru ekki vandamálið,” sagði Maliki nýlega. „Við verðum bara að sjá til þess að þeir falli í hendur heiðarlegra manna."

David Petraeus, yfirmaður bandaríska herliðsins í landinu, hefur sagt peninga mikilvægt vopn í baráttunni fyrir því að fá almenning til að snúa baki við öfgamönnum og koma á stöðugleika í Írak. Þá hvatti Mike Mullen, sem sér um samræmingu erlenda herliðsins í landinu, nýlega til þess að írösk stjórnvöld dreifi enn meiri fjármunum til almennings og þá ekki síst í borginni Mosul í norðurhluta landsins.

Bandaríska herliðið hefur einnig varið fjármunum í að kaupa súnníta í landinu til að snúa baki við al Qaeda samtökunum og til uppbyggingar hverfa þar sem þeir hafa viljað auka stuðning íbúa við málstað yfirvalda og Bandaríkjamanna í landinu.

Hafa slíkar aðferðir verið gagnrýndar m.a. í Bandaríkjunum þar sem þær þykja ýta undir spillingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert