Að minnsta kosti 21 lét lífið þegar sjálfsvígssprengjumaður sprengdi sjálfan sig í loft upp í Suður-Afganistan. Mörg fórnarlambanna voru börn að sögn lögreglu.
Sprengjan sprakk um kl. 10:30 við markað í Deh Rawud í Uruzagan-héraði landsins
Að sögn lögreglu ók árásarmaðurinn bifhjóli á lögreglubifreið, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Þar kemur fram að árásum uppreisnarmanna hafi fjölgað mjög undanfarna mánuði. Embættismenn saka talibana um að hafa staðið á bak við ódæðisverkið í dag. Þeir segja að fjórir hinna látnu hafi verið lögreglumenn.
Nokkrar verslanir eyðilögðust í árásinni.
Enginn hefur lýst verknaðinum á hendur sér.