Leiðtogafundur nýstofnaðs sambands Evrópusambandsins og Miðjarðarhafsríkja fer fram í boði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta í París í dag. Fulltrúar 42 þjóða sitja fundinn sem þar sem m.a. verður rætt um óstöðugleika við Miðjarðarhaf, innflytjendur og mengun. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talið er að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta muni einnig nota fundinn til að hvetja til þess að yfirvöld í Simbabve verði beitt refsiaðgerðum.
Talsmenn franskra yfirvalda segja fundinn vera vonarneista um bætt samskipti á Miðjarðarsvæðinu. Í gær tilkynnti Sarkozy að sá árangur hefði þegar nást fyrir tilstuðlan sambandsins að fulltrúar Líbana og Sýrlendinga hefðu samið um að opna sendiráð í höfuðborgum ríkjanna.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, sagði hins vegar í gær að það væru vonbrigði að ekki stæði til að fulltrúar Ísraela og Palestínumanna nýttu fundinn til viðræðna sín á milli.
Stofnun samtakanna hefur verið gagnrýnd sem tilgangslaus og innihaldslítil en það þykir hins vegar markvert að Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu, er eini leiðtogi Evrópusambands og Miðjarðarhafsríkja sem ekki sækir fundinn. Segir hann stofnun samtakanna vera nýja gerð nýlendustefnu.
Hugmyndin að stofnun samtakanna er frá Sarkozy komin en upphaflega stóð til að stofna samtök ríkja við Miðjarðarhaf. Því var síðan breytt í samtök Evrópusambands og Miðjarðarhafsíkja, aðallega fyrir þrýsting frá Þjóðverjum sem vildu fá aðild að sambandinu.