Meira en hundrað þúsund vandamálafjölskyldur með ólátaunglinga verða hluti af átaki vegna hnífaglæpa í London. Ef engin breyting verður hjá verstu tuttugu þúsund fjölskyldunum geta þær verið bornar út.
Það er forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, sem hefur tilkynnt um þetta að sögn fréttavefsins BBC News.
Forsætisráðherrann er hlynntur frekari útgöngubönnum unglinga og stefnir að því að gera það óásættanlegt að bera hníf.
Innanríkisráðherra landsins, Jacqui Smith, hefur neitað því að hafa sagt að þeim sem bera hnífa verði skylt að heimsækja fórnarlömb hnífaglæpa á sjúkrahús. Hún hafi átt við að ungt fólk sem sé gripið með hnífa myndi þurfa að taka afleiðingum gerða sinna, þar með talið taka þátt í námskeiðum þar sem kennt verður á myndrænan hátt að verða meðvitaður um vopn og fara á fyrirlestra á sjúkrahús þar sem heilbrigðisstarfsfólk talar um afleiðingar hnífasára.
Hún hefur áður sagt að aðgerðir miðist við forvarnir, aðgerðir og refsingar.
Forsætisráðherrann hefur lagt að bæjaryfirvöldum að taka upp útgöngubann á næturnar fyrir unglinga á svæðum þar sem vandamál ríkja.
„Það sem ég vil er að allir sem beita hnífi fari í fangelsi. Allir sem beri hnífa fari annað hvort í fangelsi eða greiði samfélaginu umtalsverðar bætur fyrir hegðun sína og það felur í sér samfélagsþjónustu,“ segir Brown. Þessi samfélagsþjónusta getur falist í götuþrifum á föstudags og laugardagskvöldum eða að hreinsa veggjakrot.
Meira verður um að leitað verði að hnífum á fólki og löggæsla verður sýnilegri. Beinar aðgerðir verði sömuleiðis gagnvart um hundrað og tíu þúsund fjölskyldum með vandræðaunglinga.
Þessir unglingar hafa annað hvort verið reknir úr skóla, komist í kast við lögin eða búið er að skrá þá sem einstaklinga sem geti síðar meira valdið vandræðum.
Foreldrar unglinganna fara á námskeið sem kenna þeim að fylgjast betur með börnum sínum.