Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, hefur greint frá því að ágreiningur sé kominn upp á milli Ísraela og Palestínumanna um stofnályktun leiðtogafundar nýstofnaðs sambands ríkja Evrópusambandsins og Miðjarðarhafsríkja. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Kouchner segir ágreininginn snúast um það hvort Ísrael falli undir skilgreininguna lýðræðislegt þjóðríki. Mikil bjartsýni hefur einkennt fundinn fram til þessa og hefur hann þótt skrautfjöður í hatt Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta sem átti frumkvæðið að stofnun sambandsins.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, átti sérstakan fund á leitogafundinum í gær og sögðu að honum loknum að þeir teldu þjóðirnar aldrei hafa verið nær því að ná friðarsamkomulagi sín á milli en nú.