Átta ára drengur er í lífshættu eftir að hafa þeyst úr leiktæki í skemmtigarðinum Fårup Sommerland í Danmörku. Slysið varð í tæki sem heitir „Tekoppen" en í því snúast bollalaga vagnar í hringi í kring um sjálfa sig og hvern annan. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Svo virðist sem öryggisslá vagnsins sem drengurinn sat í hafi opnast. Þeyttist hann úr vagninum og hafnaði á öðrum vagni. Hann mun m.a. vera höfuðkúpubrotinn og með heilablæðingar.
Søren Kragelund, forstjóri skemmtigarðsins, segir að tækið hafi verið í notkun í fimmtán ár og talið hafi verið ómögulegt að slíkt gæti gerst. Þá segir hann að svo virðist sem drengurinn hafi sparkað lásinn upp með miklu afli.
Vinnueftirlitið á norðanverðu Jótlandi hefur úrskurðað að um einstakt slys hafi verið að ræða og veitt leyfi fyrir því að tækið sé áfram í notkun. Það hefur þó ekki verið sett í gang á ný þar sem forsvarsmenn Fårup Sommerland segjast vilja herða lása og festingar til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.