Skopteikning á forsíðu bandaríska tímaritsins New Yorker af hjónunum Barack og Michelle Obama í Hvíta húsinu hefur valdið talsverðu uppnámi vestanhafs en á myndinni er Barack klæddur eins og múslimi og Michelle er í hermannafötum með alvæpni.
Á myndinni leggja þau hjónin saman hnefa. Á veggnum á bakvið þau glittir í mynd af Osama bin Laden og í arninum brennur bandaríski fáninn.
„New Yorker kann að halda, eins og einn starfsmaður blaðsins reyndi að útskýra fyrir okkur, að forsíðumyndin sé skopmynd af þeirri skopmynd, sem hægrisinnaðir andstæðingar Obamas hafa reynt að draga upp af honum. En flestir lesendur munu telja myndina smekklausa og móðgandi og við deilum þeirri skoðun," sagði Bill Burton, talsmaður forsetaframboðs Obamas.
Tucker Bonds, talsmaður framboðs repúblikanans Johns McCains sagði einnig í dag að forsíðumyndin væri smekklaus og móðgandi.
Tímaritið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að á forsíðumyndinni séu dregnir saman ýmsar fullyrðingar um Obamahjónin og hún sýni með augljósum hætti um hverskonar afbakanir sé að ræða. Segir blaðið að það reyni með skopstælingu að draga hluti fram í dagsljósið og halda uppi spegli til að sýna fordóma, hatrið og fáránleikann. Forsíðumyndin sé í þeim anda.
Tímaritið bendir einnig á, að í blaðinu séu tvær alvarlegar greinar um Obama.
Miklar umræður hafa verið um myndina á netsíðum í Bandaríkjunum í dag og sýnist sitt hverjum.