Stærsta flugsýning heims hófst í dag í Farnborough á Englandi. Að sögn AP fréttastofunnar hafa flugfélög í arabískum olíuríkjum bjargað sýningunni í ár með flugvélakaupasamningum en mörg evrópsk og bandarísk flugfélög eiga í rekstarerfiðleikum.
Við upphaf sýningarinnar í dag var skrifað undir samninga um kaup á um 150 flugvélum fyrir um 25 milljarða dala, þar á meðal 20 farþegaþotum frá evrópska flugvélarframleiðandanum Airbus. Quatar Airways, ríkisflugfélag Katar, keypti m.a. fjórar A321 flugvél og Tunisair staðfesti kaup á 16 Airbus flugvélum. Í gær voru einnig staðfestir samningar um 95 Boeing flugvélar.
Um það bil 1500 fyrirtæki frá 35 ríkjum sýna flugvélar og flugvélabúnað í Farnborough. Hápunktur setningarathafnarinnar í morgun var sýning á Lockheed Martin F-22 Raptor orrustuflugvélar, sem sýndi listir sínar.