Fulltrúadeild Bandaríkjanna samþykkti í dag að refsa hershöfðingjastjórninni í Búrma. Mun þetta verða gert með því að frysta bandarískar eignir hershöfðingja og annarra leiðtoga og banna innflutning á rúbínsteinum frá Búrma.
Samþykktin sem var samþykkt samhljóða var að því loknu send öldungadeildinni aftur en hún samþykkti á síðasta ári að banna sömuleiðis innflutning á timbri frá landinu.
Talsmaður utanríkismálanefndar þingsins, Howard Berman, sagði að ályktunin myndi setja fjárhagslegan þrýsting á hina spilltu herstjórn sem brást því hlutverki sínu að koma íbúum landsins til aðstoðar eftir hörmungar fellibyls í vor og sem barði niður af hörku mótmælagöngur búddamunka í fyrra en þeir kröfðust lýðræðislegri stjórnarhátta.
Berman sagði að aðgerðirnar myndu kosta herstjórnina hundruðir milljóna dollara árlega. Þær munu líka hvetja Chevron fyrirtækið til þess að hætta við gas verkefni sín í Búrma.
Búrma hefur verið undir herstjórn frá því 1962. Núverandi herstjórn tók völdin 1988 eftir að hafa barið niður mótmæli þar sem krafist var lýðræðis. Talið er að um þrjú þúsund manns hafi látið lífið. Hundruðir létu svo lífið í september þegar stjórnin réðist gegn búddamunkum.