Framkvæmdastjóri Liseberg skemmtigarðsins í Gautaborg segir líklegt, að biluð kúlulega hafi valdið því að klefi losnaði á leiktæki og sveiflaðist til með þeim afleiðingum að nokkrir sem í klefanum voru slösuðust. Leiktækið var yfirfarið í vor og var þá í fullkomnu lagi.
Fjöldi íslenskra ungmenna, keppendur á knattspyrnumótinu Gothia Cup, var í Liseberg þegar óhappið varð en enginn Íslendingar var í leiktækinu, stórum armi sem sveiflast líkt og pendúll í klukku. 36 voru í vagninum þegar hann losnaði og féll um 3 metra. Nokkrir köstuðust úr sætum sínum. Um 30 voru fluttir á sjúkrahús og þar af voru fimm eða sex alvarlega slasaðir, þó enginn lífshættulega. AP fréttastofan eftir talsmanni sjúkraflutningaþjónustu að nokkrir hafi hlotið beinbrot en aðrir taugaáfall. Enginn slasaðist lífshættulega. Flestir í vagninum voru Svíar, 33 talsins, auk þriggja Norðmanna.
Knattspyrnufólk á aldrinum 13-17 ára frá ÍBV, Selfossi, ÍR, KR, Fylki, FH, Grindavík, Snæfellsnesi, Leikni, Val og HK, samtals um 350 manns, tekur þátt í Gothia Cup og voru margir keppendur í Liseberg í dag. Helga Magnúsdóttir er fararstjóri á vegum Úrvals-Útsýnar í Gautaborg og vissi hún undir kvöld ekki annað en allir Íslendingarnir væru heilir á húfi. Fram kemur á heimasíðu Gothia Cup að sjö keppendur á mótinu, allir frá Uppsölum í Svíþjóð, hafi verið í leiktækinu. Þeir hafi fengið taugaáfall en ekki líkamlega áverka.
Liseberg er stærsti skemmtigarður á Norðurlöndunum og þar eru yfir 30 leiktæki. Leiktækið sem skemmdist nefndist Rainbow. Ekkert aldurstakmark er í tækið en fólk verður að vera minnsta kosti 130 sentimetrar á hæð til að fá aðgang.