Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, segir líklegt að ef önnur hryðjuverkaárás verður gerð í Bandaríkjunum, muni hún eiga rætur sínar að rekja til Afganistan. Ennfremur gagnrýnir Obama George W.Bush, Bandaríkjaforseta, harðlega fyrir stefnu sína og fyrir að heimila að bandarísk vopn streymi inn í Írak. Þetta kemur fram í ræðu sem Obama flytur síðar í dag, en kosningaskrifstofa hans hefur opinberað efni hennar. Fyrirhugað er að Obama heimsæki Írak, Afganistan og Miðausturlönd á næstunni.
„Ef Bandaríkin verða aftur fyrir árás, er líklegt að árásin verði skipulögð á sama stað og hryðjuverkin þann 11. september 2001, þrátt fyrir það er Bandaríkjaher með fimm sinnum fleiri hermenn í Írak en í Afganistan," segir Obama.
Obama lofar því m.a, verði hann kjörinn forseti, að einbeita sér að því að ljúka stríðinu í Írak á ábyrgðarfullan hátt, og að binda endir á deilur við Al-Qaeda og talibana.
Obama segir að ekki sé einungis hægt að einbeita sér að Bagdad, höfuðborg Íraks, í stríðinu gegn hryðjuverkum, heldur einnig Kandahar og Karachi í Pakistan, Tókýo, London, Peking og Berlín. Bækistöðvar Al-Qaeda hafi til að mynda stækkað mikið í Pakistan, og meðlimir dreifst víða um allan heim.
Obama gagnrýnir bæði Bush og John McCain, forsetaframbjóðanda repúblikana, fyrir að einblína á málefni Íraks og segir það ekki réttu leiðina til þess að tryggja öryggi í Bandaríkjunum.