Fagnað sem þjóðhetjum í Líbanon

Liðsmenn Hizbollah bera kistur Líbana og Palestínumanna sem Ísraelar létu …
Liðsmenn Hizbollah bera kistur Líbana og Palestínumanna sem Ísraelar létu í skiptum fyrir líkamsleifar tveggja Ísraela í dag. AP

Ríkisstjórn Líbanons hefur lýst yfir þjóðhátíð í landinu í dag til að fagna lausn fimm líbanskra fanga úr fangelsum í Ísrael. Ísraelar sleppa mönnunum í dag í skiptum fyrir líkamsleifar tveggja hermanna sem Hizbollah-samtökin handsömuðu árið 2006. Þá afhenda Ísraelar samtökunum líkamsleifar 199 líbanskra og palestínskra manna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.

Einn mannanna er Samir Kuntar var dæmdur í margfalt lífstíðarfangelsi fyrir hryðjuverkaárás gegn Ísraelum árið 1979. Fjórir Ísraelar, þar af eitt barn létu lífið í tilræðinu sem þótti sérlega hrottalegt.Fuad Siniora, forsætisráðherra Líbanons,  Michel Suleiman, forseti landsins og Nabih Berri, forseti líbanska þingsins, munu taka á móti föngunum við hátíðlega athöfn á Rafic Hariri alþjóðaflugvellinum í Beirút í dag.

Lausn mannanna  var fagnað á götum úti á Gasasvæðinu í dag.  „Dagurinn í dag er mikill sigurdagur andspyrnuhreyfinganna og Hizbollah,” sagði  Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas-samtakanna sem fara með stjórn Gasasvæðisins.

„Þetta sýnir að eina árangursríka leiðin til að frelsa fanga er að ræna hermönnum.”

Ismail Haniyeh, leiðtogi stjórnmálaarms Hamas, fagnaði einnig lausn Kantars, sem hann kallaði arabíska frelsishetju. Þá sagði hann Ísraela enn eiga eftir að greiða fyrir lausn ísraelsks hermanns sem talinn er vera á lífi í haldi Palestínumanna.

„Líkt og heiðarleg fangaskipti áttu sér stað í dag, erum við staðráðnir í því að eiga heiðarleg skipti á okkar eigin föngum, sem haldið er í fangelsum í Ísrael. Þau snúast um ísraelskan hermann  og þúsundir sona okkar sem sitja í fangelsum,” sagði hann.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert