Farið fram á að Khodorkovskí verði veitt reynslulausn

Mótmælandi heldur á mynd af Khodorkovskí við mótmæli í Moskvu …
Mótmælandi heldur á mynd af Khodorkovskí við mótmæli í Moskvu í maí sl. Þess var þá minnst að þrjú ár eru liðin frá því Khodorkovskí var sakfelldur. Reuters

Lögmenn rússneska olíuauðkýfingsins Míkhaíl Khodorkovskí segjast hafa farið fram á að honum verði veitt reynslulausn. Khodorkovskí var sakfelldur fyrir skattsvik og fjárdrátt í maí árið 2005. Hann var dæmdur 8 ára fangelsi, en hann hefur hins vegar setið á bak við lás og slá í tæp fimm ár.

Lögmenn hans greindu frá því í dag að þeir hafi farið fram á það við dómstól í Chita að Khodorkovskí verði látin laus til reynslu.

Málaferlin gegn Khodorkovskí og Yukos-olíufyrirtækinu, sem var í hans eigu, eru sögð hafa verið refsing rússneskra stjórnvalda gagnvart honum, sem var sjálfstæður og hafði pólitískan metnað. Rosneft, sem er olíufyrirtæki í eigu ríkisins, hefur tekið yfir rekstur Yukos.

Það að dómstóllinn sé reiðubúinn að íhuga að veita Khodorkovskí reynslulausn er talið til marks um stjórnarhætti Dimitrís Medvedevs, forseta Rússlands, en hann er sagður vilja hlíta lögum í einu og öllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert