Farþegaskip frá Venezuela með tólf hundruð farþega innanborðs var kyrrsett í New York höfn í dag eftir að landhelgisgæslan fann verulegan skaða á skrokki skipsins.
Athugunin á Clipper Pacific byrjaði á sunnudag og lauk í gær. Hún leiddi í ljós að skrokkur skipsins lak og gerði landhelgisgæslan að auki sextíu og sex athugasemdir varðandi öryggi skipsins. Þeirra á meðal voru athugasemdir vegna skemmda á björgunarbátum og gerð björgunarvesta.
Köfunarfyrirtæki hefur gert tímabundnar viðgerðir á skrokki skipsins en landhelgisgæslan fyrirskipaði að fleyið sem er 194 metrar á lengd skuli vera um kyrrt í höfninni þar til allsherjar viðgerðir hafi farið fram.
Skipið er skrásett á Bahamaeyjum og var á leið frá Grænlandi þegar landhelgisgæslan stöðvaði það. Það var á leið til Venezúela.
Farþegum skipsins er frjálst að koma og fara frá borði á meðan á viðgerðum stendur.