Ísraelsher hefur staðfest með formlegum hætti, að líkamsleifar, sem Hizbollahsamtökin í Líbanon afhentu í morgun, eru af tveimur ísraelskum hermönnum sem Hizbollah tók til fanga árið 2006. Ísraelsmenn láta á móti lausa fimm fanga og skila líkum 200 herskárra Líbana og Palestínumanna.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hafa ísraelskir hershöfðingjar heimsótt fjölskyldur hermannanna tveggja og tilkynnt þeim að borin hafi verið kennsl á líkin. Óvissa hafði ríkt um það hvort hermennirnir væru lífs eða liðnir.
Hizbollah rændi Ísraelsmönnunum tveimur, Eldad Regev og Ehud Goldwasser, sumarið 2006 og í kjölfarið braust út stríð milli Ísraelshers og stríðsmanna Hizbollah.