Fóru í heimsreisur á kostnað nágrannanna

Jocelyn Kirsch og Edward Anderton lifðu í vellystingum praktuglega á …
Jocelyn Kirsch og Edward Anderton lifðu í vellystingum praktuglega á kostnað annarra. AP

Ungu bandarísku pari tókst í nærri tvö ár að ferðast um heiminn og lifa hátt á kostnað nágranna sinna. Nú er veislunni lokið og unga fólkið á yfir höfði sér sex ára fangelsi fyrir fjársvik og önnur brot. 

Unga parið heitir Jocelyn Kirsch, 22 ára, og Edward Anderton, 25 ára. Þau játuðu fyrir rétti í Philadelphiu að hafa komist yfir persónuupplýsingar nágranna, vina, samstarfsmanna og kunningja og notað þær upplýsingar til að svíkja út fé og vörur. Alls komst parið yfir jafnvirði á annars tugs milljóna íslenskra króna með þessum hætti. 

Féð notaði parið til að leigja lúxusíbúð í Philadelphiu og fara í ferðalög til Parísar, Lundúa og Hawaii og snæða kvöldverði á dýrum veitingahúsum. Upp komst um fólkið þegar nágranni fékk tilkynningu um að hann gæti sótt pakka á pósthús. Nágranninn kannaðist ekki við pakkann og lét lögreglu vita. Lögreglan handtók síðan Kirsch þegar hún sótti pakkann, sem hún hafði pantað í nafni nágrannans.

Í íbúð unga fólksins fann lögreglan síðan tölvur og annan búnað, sem parið hafði notað til að komast yfir persónuupplýsingar og falsa nafnskírteini, greiðslukort og ökuskírteini. Þar voru einnig lyklar að íbúðum og pósthólfum nágranna parsins og tæki til innbrota. Í íbúðinni var einnig fjöldi mynda, sem unga fólkið hafði tekið í ferðum sínum um heiminn.

Í  ljós kom, að parið hafði nýtt sér bókina The Art of Cheating: A Nasty Little Book for Tricky Little Schemers and Their Hapless Victims, sem kom út fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum en í bókinni er fjallað í léttum dúr um ýmsar svikaaðferðir. 

Handtökumynd af Jocelyn Kirsch.
Handtökumynd af Jocelyn Kirsch. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert