Neyðarstyrkir til sjávarútvegs í ESB

Aðildarríki Evrópusambandsins hafa náð samkomulagi um að veita sjávarútvegi innan sambandsins neyðaraðstoð vegna hækkandi eldsneytisverðs. Aðstoðin felst í því, að einfaldaðar verða reglur svo ríkisstjórnir ESB-ríkja geti sótt fé í 1,4 milljarða evra sjóð, sem ætlaður er til slíkra aðgerða.

Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB, lagði einnig til að varið yrði 600 milljónum evra til viðbótar í styrki til sjávarútvegsfyrirtækja svo þau gætu aukið hagkvæmni og uppfyllt umhverfisverndarkröfur. Sú tillaga þarf þó að fá samþykki allra aðildarríkjanna og Evrópuþingsins.

Samkomulagið náðist á fundi sjávarútvegsráðherra ESB í Brussel í gærkvöldi. Þjóðir geta sótt um fé úr sjóðnum til að úrelda fiskiskipaflota eða greiða útgerðum, sem verða fyrir rekstartapi vegna þess að þær að endurnýja bátaflota með það fyrir augum að draga úr eldsneytiskostnaði.

Sjómenn á Spáni, Ítalíu, í Frakklandi og Portúgal stóðu fyrr í sumar fyrir fjöldamótmælum vegna hækkandi olíuverðs og er samkomulagið nú viðbrögð við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert