Sænsk stjórnvöld kynntu í dag hertar aðgerðir gegn vændi. Verður auknu fé varið til að framfylgja sænskum lögum, sem banna vændiskaup.
Einnig verður fé varið til að styrkja endurhæfingarstofnanir fyrir fólk sem stundar kynlífsþjónustu eða hefur lent í kynlífsþrælkun. Þá fá heilbrigðisstarfsmenn sérstaka þjálfun til að fást við þessi mál.
Fram kom á blaðamannafundi, sem Beatrice Ask, dómsmálaráðherra, hélt í dag, að 210 milljónum sænskra króna verði varið sérstaklega til þessa verkefnis.