Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt að erindreki hennar verður viðstaddur fund fulltrúa Evrópusambandsins og 5 ríkja með kjarnorkufulltrúa Írans í Genf á laugardaginn, að því er fram kemur á fréttavef BBC. William Burns, sendiherra Bandaríkjanna, mun fara til Sviss ásamt Javier Solana, erindreka Evrópusambandsins, til þess að kynna sér svar Írana við tilboði Sameinuðu þjóðanna, um ýmis fríðindi í garð Írana, leggi þeir kjarnorkuáætlun sína til hliðar.
Í tilkynningu frá Bandaríkjastjórn segir að Burns muni ekki eiga sérstakar viðræður við Saeed Jalili, samningamann Írana, heldur verði Burns viðstaddur til þess að hlusta á umræður fundarins.