Bílstjóri bin Ladens fyrir dóm

Bandarískur dómari hefur úrskurðað, að fyrstu stríðsglæparéttarhöldin í fangabúðunum við Guantánamoflóa, geti hafist á mánudag eins og til stóð. Verða réttarhöldin yfir fyrrum bílstjóra hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens, sem verið hefur í haldi Bandaríkjamanna í  sex ár.

Verjendur mannsins, Salims Hamdans, kröfðust þess að réttarhöldunum yrði frestað svo hann gæti látið reyna á lögmæti herréttarins fyrir bandarískum dómstólum. Herdómari í Guantánamo hafnaði kröfunni og nú hefur James Robertson, dómari í Washington, komist að sömu niðurstöðu.

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í júní, að fangar í Guantánamo ættu rétt á að skjóta málum sínum til borgaralegra dómstóla. Á þeim forsendum var úrskurði herdómarans vísað til dómstóls í Washington en Robertson dómari komst að þeirri niðurstöðu, að herdómstóllinn gæti hafið störf á mánudag án þess að það bryti í bága við dóm hæstaréttar. 

Hamdan er 37 ára gamall Jemeni. Hann er ákærður fyrir samsæri og stuðning við hryðjuverkastarfsemi og á yfir höfði sér ævilangt fangelsi verði hann fundinn sekur. Í desember komst bandarískur herdómari að þeirri niðurstöðu, að trúverðugar vísbendingar væru um að Hamdan hefði verið lífvörður bin Ladens.

Hamdan hefur viðurkennt að hafa starfað fyrir bin Laden á árunum 1997-2001 í Afganistan og þegið fyrir það jafnvirði 150 þúsund króna á mánuði en hann hefði hvorkiverið félagi í al-Qaeda samtökunum né tekið þátt í hryðjuverkaárásum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert