Hátíðarhöld í þorpi leiðtogans

Nemar í Nkalane grunnskólanum halda heim á leið eftir kóræfingu.
Nemar í Nkalane grunnskólanum halda heim á leið eftir kóræfingu. AP

Mikið er um dýrðir í Qunu í dag, þorpi Nelsons Mandela, en hann er níræður á morgun. Flötin fyrir framan litla þorpssafnið var slegin, skólakórinn æfði lag samið honum til heiðurs og vegurinn fyrir framan húsið hans var malbikaður að nýju.

Mandela hyggst halda upp á afmælið heima hjá sér í Qunu, ásamt fjölskyldu sinni. Allt þorpið tekur þátt í hátíðarhöldum.

Nkalane grunnskólinn horfir yfir búgarð Nelsons Mandela og hefur löngum notið góðs af því. Hann kom að fjársöfnun fyrir skólann svo hægt væri að byggja nýjar skólastofur og flytja úr hrörlegu eldra húsnæði. Áður fyrr heimsótti hann oft skólann en nú hefur heimsóknum hans fækkað, sökum aldursins.

Afmælisins hefur verið minnst í Suður Afríku frá ársbyrjun með ýmsum hætti, söfn hafa opnað sérstakar sýningar, andstæðingar apartheid stefnunnar hafa hist og þá voru gefin út sérstök frímerki og mynt honum til heiðurs.

Mandela ætlaði í upphafi að halda upp á afmælið með kyrrlátum hætti en nú hefur fjöldi atburða verið skipulagður í nágrenni bæjarins; fótboltakeppni, popptónlistarhátíð og hátíðarkvöldverður með fimm hundruð stjórnmálamönnum, gömlum hetjum úr baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni og aðrir gestir, heima hjá Mandela á laugardag.

Þá verður opnuð sýning skammt frá heimili Mandela á bréfum sem börn hafa skrifað til Mandela og til Rosu Parks, mannréttindabaráttukonu, sem nú er látin.

Í grunnskólanum hefur nánast öllu  skólastarfi verið ýtt til hliðar en börnin þess í stað unnið að undirbúningi afmælisisins. Kórinn syngur og sum börnin hafa ort ljóð til Mandela.

Ein stúlkan, Yaneliswa Khandawuli, sem er 16 ára orti ljóð þar sem hún þakkaði honum allt sem hann hefði gert fyrir landið.

Þess fyrir utan sagðist hún eiga eina ósk: Að Guð tæki hann ekki frá þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert