Reyndi að opna flugvélahurð í lofti

Flugvél með 250 farþega um borð á leið frá Bretlandi …
Flugvél með 250 farþega um borð á leið frá Bretlandi til Kúbu, var lent á Bermúda vegna drukkins farþega sem lét illa. Reuters

Flugmaður farþegavélar á leið frá London til Kúbu neyddist til þess að lenda vélinni á Bermúda í gær til þess losna við einn af farþegum vélarinnar.  Breskur maður, sem var um borð ásamt konu sinni og þrem börnum, var drukkinn og hegðaði sér illa í vélinni með ýmsum svívirðingum við farþega og flugþjóna.  Gerði hann m.a tilraun til þess að opna hurðina á vélinni, þegar áhöfnin reyndi að róa hann niður, að því er fram kemur á breska fréttavefnum Dailymail.

Lögregla á Hamilton flugvelli á Bermúdaeyjum kom inn í vélina og fjarlægði manninn.  Um 250 farþegar voru í vélinni, þar af 30 börn.  Talsmaður First Choice leiguflugfélagsins segir að farþegum vélarinnar og áhöfn hafi verið komið fyrir á hóteli á Bermúda þar sem þau gistu í eina nótt vegna atviksins.  Löglega séð eigi áhöfnin rétt á hvíldartíma, og varaáhöfn félagsins sé ekki til taks á Bermúda.  Því megi farþegar búast við allt að 14 tíma seinkun.     

Á fréttavef Dailymail kemur fram að reiði meðal flugfarþega hafi aukist um 62% á síðastliðnum 12 mánuðum, og fjórfaldast á undanförnum fimm árum.  Í maí var flugi með breskum ferðamönnum á leið frá Egyptalandi til Bretlands, snúið til Frakklands eftir að kona beit kærasta sinn í andlitið.  Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn sem voru um borð vélarinnar þurftu að halda parinu, sem var drukkið, niðri þar til vélinni var lent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert